Vorblót Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival 4 - 7. apríl 2019

Vorblot_fb.jpg

Dagana 4. – 7. apríl næstkomandi fögnum við vorinu með allsherjar sviðslistaveislu! Hátíðin kannar mörkin milli dans, leiklistar og tónlistar og gefur gestum tækifæri til að upplifa fjölbreytileika íslensku sviðslistanna á einu bretti.

Tjarnarbíó og RDF hafa tekið höndum saman til að setja saman metnaðarfulla dagskrá fjölbreyttra sviðsverka. Eftirfarandi hópar og listafólk munu svala sviðslistaþorstanum í ár:

Anna Kolfinna Kuran // Ástrós Guðjónsdóttir og Alma Mjöll Ólafsdóttir // Geigen (Gígja Jónsdóttir og Pétur Eggertsson) // Rebecca Scott Lord og Hrefna Lind Lárusdóttir // Rita Maria F. Munoz // Rósa Ómarsdóttir // Steinunn Ketilsdóttir // Unnur Elísabet Gunnarsdóttir

FIMMTUDAGUR 4. APRÍL

RÓSA ÓMARSDÓTTIR / TRACES

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Fimmtudagur 4. april @ 20:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Enska // 60 mínútur

Kaupið miða hér

22556418_10155854412239176_4955545755889696768_n.gif


Þunnt mosalag yfir öllu. Grænn feldur yfir öllu.

Landslagið hreyfist. Hún hreyfist.

Hér, þar sem við erum, eru allir á lífi.

Hér er allt á lífi. Þetta fjall minnir á marglyttu. Þessi planta er að reykja. Hún lætur rigna - en bara

í augnablik. Hún syngur, Náttúran. Hljómurinn sem ómar milli manneskju og hlutar. Eyra, auga,

hvað sem er, ekki neitt, hvorki ofan við né utan, ímyndun, óvættur.

Það andar allt í þessari veröld.

Kannski er þess virði að taka áhættuna sem fylgir óneitanlega manngervingu (hjátrú, náttúrudýrkun, rómantík) vegna þess að, þótt það hljómi einkennilega, þá vinnur hún gegn manngyði: þá er sleginn hljómur milli manneskju og hlutar og ég er ekki lengur ofan við eða utan við ómannlegt umhverfið.“   - Jane Bennett, Vibrant Matter

Menjar er alltumlykjandi lifandi innsetning þar sem töfrum þrungið og kvikt landslag tekur breytingum fyrir augunum á þér. Staður þar sem fólk verður að hlutum og dauðir hlutir lifna við, vaxa og fjölga sér.

Menjar er upplifun fyrir öll skynfæri sem máir út mörk okkar og umhverfisins og setur spurningamerki við stöðu okkar í lífríkinu. Draumkennt landslag sem við minnumst mitt í yfirþyrmandi veruleika þessa sérkennilega heims úr gróðri og vatni og hljóðum.

***

Höfundur: Rósa Ómarsdóttir

Flytjendur: Inga Huld Hákonardóttir, Rósa Ómarsdóttir, Jeanne Colin og Siet Raeymaekers.

Samið í samvinnu við: Inga Huld Hákonardóttir, Katie Vickers, Kinga Jaczewska og Tiran Willemse

Sviðsmynd: Ragna Ragnarsdóttir

Búningar: Ragna Ragnarsdóttir og Wim Muyllaert

Hljóðmynd: Sveinbjörn Thorarensen

Ljósahönnin: Elke Verachtert

Listræn ráðgjöf: Dries Doubi

Framleiðsla: Kunstenwerkplaats Pianofabriek

Með-framleiðsla: Kunstenwerkplaats Pianofabriek, Kunstencentrum Buda, Teaterhuset Avant Garden og MTD Stockholm.

Verkefnið hlaut styrki frá: Vlaamse Gemeenschap, Vlaamse Gemeenschapscommissie, Nordisk Kulturfond, Nordic Culture Point og Reykjavík Borgarsjóður.

Verkefnið er stutt af: Beursschouwburg, Stuk and WpZimmer.

Þakkir fá: Sinta Wibowo, Sandy Williams, Dianne Weller, Hákon Pálsson, Elke Lotens og Atli Bollason

FÖSTUDAGUR 5. APRÍL

REBECCA SCOTT LORD & HREFNA LIND LÁRUSDÓTTIR / OVERSHARING TOURS

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Föstudagur 5 april @ 17:00 & laugardagur 6. apríl @ 17:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Íslenska // 60 mínútur

Kaupið miða hér

promo800x600.jpg

Með Oversharing Tours trufla Rebecca Scott Lord og Hrefna Lind Lárusdóttir þann veruleika sem við teljum eðlilegan með leiðsögn um Reykjavík. Á meðan þær leiða gesti um borgina  kafa þær djúpt ofan í sjálfar sig og tengja þar með umhverfið við innra tilfinningaróf sitt. Þær færa persónulega hluti fram í kastljósið og ögra þar með viðurkenndum hugmyndum um hvað konur eiga, og eiga ekki, að tala um opinberlega. Verkið er í sjálfu sér ekki gjörningur, en þátttakendur munu samt fljótt komast að því að það er heldur engin venjuleg borgarleiðsögn. Eftir göngutúrinn munu gestir ekki eingöngu hafa kynnst Hrefnu og Rebeccu mun betur heldur einnig hvað trúnó felur í sér. Hvað það að standa aðgerðarlaus hjá ber í för með sér og hvað það þýðir að lifa í heimi sem geymir sögur fjölda annarra en þína eigin.


Hrefna Lind Lárusdóttir
 og Rebecca Scott Lord eru sviðslistamenn og búa og starfa í Reykjavík. Þær kanna mörkin milli mismunandi veruleika, hins sanna og hins tilbúna. Með gjörningamiðaðri kortagerð færa þær mörkin milli flytjenda og áhorfenda út í nærumhverfið.

STEINUNN KETILSDÓTTIR / VERK 1.5

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Föstudagur 6. apríl @ 19:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Íslenska // 30 mínútur

Kaupið miða hér

55919101_10161397608765398_6538902487695360000_n.jpg

Í Verki nr. 1,5 er áhorfandanum boðið inní marglaga heim hreyfingar og hljóða. Þar sem  hreyfingin er skörp og skýr en full angist og átaka. Þetta er heimur mótsagna þar sem nándin og fjarlægðin renna saman í eitt og  rafmagnað samband þess innra og ytra er kannað.

Verk nr. 1,5 er annað dansverkið í samnefndri röð verka eftir danshöfundinn Steinunni Ketilsdóttur sem sprettur upp af rannsóknarverkefninu EXPRESSIONS: virði og vald væntinga í dansi þar sem stöðugt er leitað að hinum dansinum, okkar dansi.

Danslistakonan Steinunn Ketilsdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur þverfaglega innan danslistarinnar sem flytjandi, höfundur, rannsakandi, kennari og skipuleggjandi - bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra listamenn. Í gegnum líkamann og kóreógrafíu nálgast hún hreyfingu, hugsun og texta í verkum sínum. Síðastliðin ár hefur Steinunn helgað sig því að skapa rými í gegnum verkefnin sín þar sem fjalla má á gagnrýninn hátt um fyrirfram gefnar hugmyndir okkar tengdum danslistinni og hvernig væntingar hafa áhrif á okkar listræna og persónulega líf. Rými fyrir rannsóknir og greiningu, sem krefst djúphygli og er vegvísir til framtíðarinnar.

Höfundur: Steinunn Ketilsdóttir Flytjandi: Snædís Lilja Ingadóttir Tónlist: Áskell Harðarson Búningur: Alexía Rós Gylfadóttir Ljós: Kjartan Darri Kristjánsson Verkefnisstjóri: Erla Rut Mathiesen

UNNUR ELÍSABET GUNNARSDÓTTIR / ÉG BÝÐ MIG FRAM : SERÍA 2

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Föstudagur 6. apríl @ 21:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Íslenska // 60 mínútur

Kaupið miða hér

Event_7199.jpg

„Ég býð mig fram til að flytja verkið þitt. 14 höfundar. 14 örverk. Komdu og upplifðu smáréttaveislu.“

Ég býð mig fram / Sería 2 er listahátíð yfir eina kvöldstund þar sem listamenn þvert yfir listsviðið skapa sér hver sitt örverk. Í ár eru fjórtán höfundar. Listsviðið er breitt en listahátíðin er tilraun til að færa listsköpunina nær almenningi með suðupotti hugmynda úr ólíkum áttum, eins konar smáréttahlaðborði. 

„Það er gjöfult að vinna þvert á listgreinar. Ég hef komist að því að rithöfunda dreymir á laun um að semja dansverk, myndlistarfólk vill búa til lifandi performans og dansarar þrá að fá að japla á góðum texta. Í raun hafa samræður mínar við listamennina snúist um hugmyndi rsem geta tekið á sig alls kyns myndir ef við leifum okkur að afmá mörk milli skapandi greina. Þannig hefur verkefnið ekki bara opnað heim minn og huga heldur hafa gestalistamennirnir komið sjálfum sér á óvart með því að láta gamla eða nýja drauma rætast.“

Ég býð mig fram / Sería 2 snýst um að brjóta niður veggi. Kasta sér út í alheiminn, sjá hvort hann grípur, kastar þér til baka eða fer með þig í rússíbanareið. Listahátíðin snýst um að koma saman, án fordóma, án landamæra, bara fólk að vinna saman. Hittast í miðju, teygjast, kuðlast eða móta hvort annað í stuttum þremur mínútum hvort sem þær verða enn fleiri í framtíðinni eða fyrstu og síðustu mínútur samvinnu þessara tveggja aðila. 

Listrænn stjórnandi og leikstjóri listahátíðarinnar: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir. Framkvæmdastjóri: Álfrún Helga Örnólfsdóttir.Ljósahönnuður og hljóðmaður: Hafliði Emil Barðason Ljósmyndari: Saga Sigurðardóttir Grafískur Hönnuður: Sveinbjörg Jónsdóttir Flytjandi: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Höfundar listahátíðar 2019: Almar Steinn Atlason, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Frank Fannar Petersen, Friðgeir Einarsson, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Helgi Björnsson, Ilmur Stefánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Kitty von Sometime, Kristinn Arnar Sigurðsson, Steinar Júlíusson, Ólafur Darri Ólafsson, Ólöf Kristín Helgadóttir, Urður Hákonardóttir. 

Listahátíðin hlaut styrki frá Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 


LAUGARDAGUR 6. APRÍL

GÍGJA JÓNSDÓTTIR & PÉTUR EGGERTSON / GEIGEN GALAXY #2

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Laugardagur 6. apríl @ 19:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Íslenska // 60 mínútur

Kaupið miða hér

Geigen 800x600.png

Geigen Galaxy #2 er önnur tónleikaupplifun teknófiðludúósins GEIGEN. sem samanstendur af Gígju Jónsdóttur og Pétri Eggertssyni. Með Geigen Galaxy, fjarstæðukenndum tónleikaupplifunum skjótast þau út fyrir vetrarbrautina. Magnþrungin hljóð fiðlunnar breytast í rafbylgjur og stjörnuryk með þeim afleiðingum að rýmið verður að svartholi. Í dansi sínum ferðast áhorfendur á milli sólkerfa.

GEIGEN

Teknódúóið GEIGEN var stofnað haustið 2018 þegar leiðir Gígju og Péturs lágu saman í San Fransico. Þau uppgötvuðu að þau höfðu bæði eytt fyrri helming ævinnar í klassískt fiðlunám en lagt hljóðfærið á hilluna sökum staðnaðs tónmenntakerfis. Fiðlan var þeim engu að síður ennþá mikilvæg en þau deildu sameiginlegum áhuga á því að flétta hljóðfærið inn í listsköpun sína.

GEIGEN er uppreisn gegn hinni klassísku birtingarmynd fiðlunnar, þráin til þess að brjótast út úr hefðbundnum strúktúr, upphafning fiðlunnar og tilraun til þess að færa hana inn í framtíðina. Fyrsta tónleikaupplifun þeirra Geigen Galaxy #1, var haldin í Mengi í byrjun árs 2019.

Höfundar og flytjendur: Gígja Jónsdóttir og Pétur Eggertsson Ljósmyndir: Magnús Andersen

ANNA KOLFINNA KURAN / YFIRTAKA : KONULANDSLAG

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Laugardagur 6. apríl @ 21:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Íslenska // 60 mínútur

Kaupið miða hér

Woman Landscape-24.jpg

Yfirtaka: Konulandslag eftir Önnu Kolfinnu Kuran er bæði gjörningur og tilraun sem skoðar sambönd, samstöðu og tengsl kvenna þvert á kynslóðir. Ásamt fjölda kvenna á ýmsum aldri tekur Anna Kolfinna bókstaflega yfir rými Tjarnarbíós í eina kvöldstund. Saman skapa þær sér sitt eigið konulandslag með töfrandi athöfn.

Verkið er hluti af rannsóknarverkefninu Konulandslag þar sem Anna Kolfinna veltir fram spurningum um kvenlíkamann og vægi hans innan mismunandi umhverfa. Á hvaða stöðum birtist kvenlíkaminn, hvernig birtist hann og hvar er hann fjarverandi? Hvar eru konur velkomnar og öruggar og hvar eru þær óvelkomnar? Hvar er pláss fyrir konur og líkama þeirra og hvar þurfa þær að gera innrás til þess að fá að vera með? Með Konulandslagi skoðar Anna Kolfinna, skapar og ber kennsl á landslagsmyndir kvenlíkamanns. Yfirtaka: Konulandslag var frumflutt í Mengi í janúar á þessu ári en hefur nú verið aðlagað að rýminu í Tjarnarbíói.

SUNNUDAGUR 7. APRÍL

ALMA MJÖLL ÓLAFSDÓTTIR & ÁSTRÓS GUÐJÓNSDÓTTIR / I WANT TO DANCE LIKE YOU PT. 2

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Sunnudagur 7. apríl @ 19:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Íslenska // 60 mínútur

Kaupið miða hér

ride p2 800 x 600 pixlar 72 dpi - sunna axels.jpg

I Want to dance like you part 2 er sjálfstætt framhald verksins I want to dance like you sem mistókst svo hrapalega þegar það var fyrst sett á svið að það heppnaðist vel fyrir tilviljun. Núna, þegar ár er liðið frá fyrra verkinu, velta höfundarnir Alma Mjöll Ólafsdóttir og Ástrós Guðjónsdóttir því fyrir sér hvernig hægt er að skapa framhald af verki sem heppnaðist óvart, einmitt af því það „misheppnaðist“. Hvernig verða mistök að möguleikum? Nú er ár liðið frá fyrra verki og markmiðið er að gera betri sýningu, því þær eru nú einu sinni útskrifaðar með „BA gráðu í sviðslistum!

Nánar um verkið:

Alma Mjöll Ólafsdóttir og Ástrós Guðjónsdóttir útskrifuðust úr Listaháskóla Íslands vorið 2018. Alma útskrifaðist af sviðshöfundabraut og Ástrós samtímadansbraut. Saman hafa þær unnið að ýmsum verkefnum sem öll eiga það sameiginlegt að vinna þvert á listgreinar. Þær  nýta styrkleika sem og veikleika úr hvorri listgrein fyrir sig til að kanna möguleika samruna og sambræðings. Verkið I want to dance like you var útskriftarverk Ástrósar. Það var unnið út frá löngun þeirra til að læra að dansa út frá forsendum hver annarrar. Vinnsla verksins gekk vel framan af en endaði svo í kaosi þegar perónulegt líf þeirra tróð sér með offorsi inn í æfingaferlið. Til varð rými fyrir uppgjöf, einlægni, vináttu, leyfi til að gera mistök og til að láta lífið hafa áhrif á listina. Úr varð sýning um sýninguna sem varð aldrei. Nú ári síðar taka þær höndum saman við gerð á framhaldi sem er í senn tilraun til að færa fyrra verkið úr skólabúning og inn í heim hins sjálfstæða listamanns og rannsókn á hugmyndinni um mistök. I want to dance with you part 2 er sýning um sýninguna um sýninguna sem varð aldrei.

Höfundar og flytjendur: Alma Mjöll Ólafsdóttir og Ástrós Guðjónsdóttir Ljósahönnun: Guðmundur Felixson Tónlist: Kristinn Arnar Sigurðsson Ljósmyndir: Sunna Axelsdóttir Sérstakar þakkir: Bára Magnúsdóttir, Henson, Irma Mjöll Gunnarsdóttir, Kári Einarsson, Lára Sif Lárusdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir.


RITA MARIA F. MUNOZ / BODY IN PROGRESS

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Sunnudagur 7. apríl @ 21:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargata // Íslenska // 30 mínútur

Kaupið miða hér

BodyInProgress-Mynd-LeifurWilberg.jpg

Body in Progress er að hluta til tilraun, gjörningur og linnulaus æfing. Í verkinu rannsakar Rita Maria F. Munoz þessa spurningu: „Getur líkaminn endurræst sig? Tæmt sig öllum upplýsingum og skapað eitthvað annað?“ Það er enginn endir, engin lokaniðurstaða – Body in Progress er andardráttur, hvíld, dauði, augnablik, semíkomma. Líkami í framvindu.

Rita Maria F. Munoz er danshöfundur og dansari. Í verkum sínum rannsakar hún mannshugann, mannlega hegðun, sjálfsvitund, takmarkanir og endurtekningu. Sem dansari setur hún sjálfa sig í óþægilegar aðstæður og notar þær sem eldsneyti fyrir dansinn. Hún kannar takmarkanir eigin líkama, hvernig þær geta nýst og stundum verið dregnar fram í sviðsljósið. Body in Progress er útskriftarverk hennar frá Samtímadansbraut Listaháskóla Íslands. Verkið er í stöðugri þróun, deyr og endurfæðist án afláts. Ekkert sem líkaminn framkvæmir er fullkomið, hann bara er.

Höfundur og flytjandi: Rita Maria F. Munoz Tónlist: Íris Rós Listrænn ráðgjafi: Saga Sigurðardóttir Ljósmyndir: Leifur Wilberg Orrason